Námsmat

Stöðugt mat á þroska barnanna fer fram í leik og starfi.  Árgangastjórar fylgjast með þroskaframförum barnanna og skrá reglulega yfir veturinn og gera samantekt á framförum þeirra fyrir foreldraviðtöl sem eru haldin a.m.k. einu sinni á ári í kring um afmælisdag hvers barns.

Við námsmat barnanna er lögð áhersla á:

  • Alhliða þroska
  • Sjálfstæði
  • Áhugasvið
  • Þátttöku í leik úti og inni
  • Félagsfærni og samkennd
  • Frumkvæði og sköpunarkraft
  • Tjáningu og samskipti

 

Til þess að meta stöðu og þroska barna eru líka notuð stöðluð próf og skimanir.

Mot – 4-6 er  hreyfiþroskapróf sem má nýta til að mæla hreyfiþroska barna á aldrinum 4-6 ára.  Verkefnin 18 kanna líkamsliðleika, samhæfingu, færni, fínhreyfingar, jafnvægi, viðbragðshæfni, stökkkraft, hraða og nákvæmni hreyfinga. Prófið er notað á tveimur elstu árgöngum leikskólans  í janúar.

Íslenski þroskalistinnsem gefinn er út á vegum Rannsóknarstofnunar uppeldis- og menntamála. Hann er tæki til að mæla þroska 3ja til 6 ára barna á mál- og hreyfisviði. Móðir svarar 208 staðhæfingum um þroska barnsins og niðurstöður byggja á þeim svörum. Listinn er íslenskur og staðlaður fyrir íslenskar aðstæður. Fundin er ein þroskatala auk mælitölu, annars vegar fyrir hreyfisvið og hins vegar fyrir málsvið. Hreyfisvið nær yfir fínhreyfingar, grófhreyfingar og sjálfsbjörg. Málsvið er hlustun, tal og nám. Listann má nýta til að meta þroska einstaka barns sem og til að meta þroska barna í heilum árgangi.  Í leikskólanum er hann lagður fyrir öll fjögurra ára börn í janúar.

Íslenski smábarnalistinn er staðlaður þroskalisti til að meta mál- og hreyfiþroska ungbarna á aldrinum 15 til 38 mánaða. Listinn er sjálfstætt framhald af Íslenska þroskalistanum og svarar móðir spurningum líkt og við Íslenska þroskalistann.  Þessi listi er lagður fyrir ef þurfa þykir.

HLJÓM–2 er athugun á hljóðkerfis- og málvitund barna og byggir á niðurstöðum langtímarannsókna á tengslum hljóð- og málvitundar við lestrarfærni barna. HLJÓM – 2 er lagt fyrir öll elstu börn leikskólans í september. Athugunin fer fram í leikskólanum og tekur um 20 mínútur. Með þessari viðbót eru enn meiri líkur á að greina börn sem hugsanlega eru í áhættu hvað varðar lestrarörðugleika og mæta þeim með viðeigandi aðgerðum síðasta árið í leikskólanum. Ef um frávik er að ræða er haft samband við foreldra, niðurstöður ræddar og viðeigandi ráðstafanir gerðar. Þá er próf lagt aftur fyrir í janúar.

TRAS er skráning á málþroska 2-5 ára barna.  Skoðaður er samleikur og félagfærni, tjáskipti og samskipti, athygli og einbeiting, málskilningur og málmeðvitund, setningamyndun og framburður. Þessir þættir gefa góða yfirsýn yfir málþroskaferli barns. Ef veikleikar koma fram á einhverju sviði er strax hægt að bregðast við.  Leikskólakennarar sem hafa réttindi til að taka TRAS próf sjá um þennan þátt.  Lagt fyrir öll börn frá 2- 5 ára tvisvar á ári.

AAL prófiðer atferlis- og athuganalisti sem metur atferli  barna. Leikskólakennari/ sérkennslustjóri fylla út þennan lista ef þurfa þykir.

Orðaskil er málþroskapróf sem byggir á orðaforðagátlista fyrir börn á aldrinum eins og hálfs til þriggja ára. Prófinu er ætlað að mæla orðaforða barnanna svo og hvort þau hafa náð valdi á beygingarkerfi og setningagerð málsins. Aldursviðmið fylgja prófinu, en með samanburði við þau er skorið úr um hvort málþroski barna mælist innan eðlilegra marka miðað við jafnaldra. Kennarar og foreldrar fylla út listann  ef áhyggjur varðandi málþroska eru fyrir hendi.

Ef grunur leikur á að námsferill og framfarir í þroska séu ekki sem skildi er það skoðað nánar og unnið er þá út frá áhuga og styrkleika hvers barns.