Saga skólans

Leikskólinn Laugaland tók til starfa í maí 1996 og var þá staðsettur í Mýrarkoti, húsnæði sem nú hefur verið rifið. Sumarið 2007 flutti leikskólinn í sama húsnæði og hýsir Laugalandsskóla, í rými sem áður hét Súlnasalur. Fyrstu 20 árin var leikskólinn einnar deildar en 1. september 2017 var starfsemi leikskólans skipt upp í eldri og yngri deild. Yngri deildin fékk nafnið Holt og er hún áfram til húsa í gamla Súlnasalnum. Eldri deildin fékk nafnið Land og er hún staðsett á efri hæð hússins, í Miðgarði og þeim hluta hússins sem áður hýsti sveitarstjórnarskrifstofur Holta- og Landsveitar.

Í Holtum, yngri deild, eru þrír yngstu árgangar leikskólans, börn á aldrinum 1-3 ára.  Uppi á Landi, eldri deild, eru tveir elstu árgangar leikskólans, börn á aldrinum 4-5 ára. Á hvorri deild er gert ráð fyrir að hægt sé að taka á móti allt að 25 nemendum, en á vorönn 2021 voru 44 börn í leikskólanum, 23 á yngri deild og 21 á eldri deild.

Leikskólinn er rekinn af sveitarfélögunum Ásahreppi og Rangárþingi ytra. Þessi sveitarfélög standa að baki Byggðasamlaginu Odda bs. sem sér um rekstur leik- og grunnskóla þessara sveitarfélaga. Nánar má lesa um Byggðasamlagið Odda hér.