Á Laugalandi er lögð áhersla á góða samfellu á milli skólastiga og er sameiginleg læsisstefna liður í því samstarfi.
Lestrarfærni er forsenda virkrar þátttöku í lýðræðissamfélagi en bágur lesskilningur getur haft neikvæð áhrif á námsframvindu og atvinnutækifæri síðar meir. Í leikskóla er lagður grunnur að málþroska og læsi barna og því getur markviss vinna á þeim árum haft grundvallaráhrif á færni barna til frekara lestrarnáms. Það er á leikskólaárunum sem viðhorf barna og vitund til læsis mótast. Þegar börnin fara upp á næsta skólastig eiga þau að vera vel undirbúin fyrir frekara lestrarnám en þar fer síðan fram markviss lestrarkennsla og þjálfun. Á báðum skólastigum eru gerðar skimanir sem aðstoða við að finna nemendur sem gætu átt í lestrarörðugleikum og þá er unnið með þá þætti sérstaklega til að styrkja og hjálpa nemendum. Mikilvægt er að lestur og lestrarþjálfun sé í góðri samvinnu við foreldra og forráðamenn og að þeir séu virkir þátttakendur í þeirri vinnu.