Holt - vor 2021

Foreldrakönnun Holt – úrvinnsla vor 2021

Sjálfsmat var lagt rafrænt fyrir foreldra 24 barna í Holtum 15. apríl og var könnun opin til 25. apríl.  Spurningalistinn var sendur á 34 foreldra eða á öll netföng sem við höfum skráð hjá okkur og svöruðu 17 eða 50% þeirra sem fengu könnun senda.  Þættir sem spurt var um að þessu sinni voru: uppeldis- og menntastarf, leikskólabragur, stjórnun, auk spurninga frá úrbótaáætlun.  Þeir þættir sem ekki ná 80% ánægju (mjög sammála eða sammála) eru settir á útbótaáætlun.  Í þessari könnun þarf fjóra foreldra sem eru óánægðir til að viðkomandi þáttur sé settur á úrbótaáætlun.

Hér má nálgast myndrænar niðurstöður foreldrakönnunar.

Allir foreldrar eru sammála því að börnin þeirra séu ánægð í leikskólanum og það sé vel tekið á móti þeim að morgni og þau séu kvödd hlýlega í lok dags.  Foreldrar telja sig vera velkomin í leikskólann og að starfsmenn bregðist við ábendingum og beiðnum þeirra varðandi börnin. Allir eru ánægðir með samskipti starfsmanna við börnin og telja að námið sem börnin fá samræmist þeim væntingum sem þeir hafa til leikskólans. Þegar spurt er um hvort foreldar telja sig fá upplýsingar varðandi líðan barna sinna í leikskólanum og hvort upplýsingastreymi frá skólanum sé gott eru allir foreldrar sammála því nema tveir sem eru ósammála.  Öllum foreldrum finnst mikilvægt að leikskólinn fái upplýsingar um breytingar á högum/líðan barnanna.  Foreldrar voru spurðir hvað þeir nýta sér helst til þess að fá upplýsingar um starfsemi skólans og kemur þar í ljós að dagleg samskipti við starfsfólk fær flest stig og þar á eftir facebooksíða skólans og í þriðja sæti Karellen.  Heimasíðan okkar fær fæst stig.  Allir foreldrar nema tveir telja að þeir séu látnir vita ef eitthvað kemur upp á varðandi barnið á leikskólatíma. Varðandi samskipti foreldra við leikskólastjóra og deildarstjóra eru allir sammála um að þau samskipti séu góð.   Eitt foreldri telur að það eigi ekki góð samskipti við starfsfólk á deildinni en allir aðrir telja samskiptin góð.  Tveir foreldrar eru ekki ánægðir með kynningu á nýju starfsfólki en aðrir telja kynningu á þeim góða.  Allir foreldrar telja foreldraviðtöl mikilvæg og voru ánægðir með síðasta viðtal.  Þegar spurt erum hvort foreldrum finnist foreldrafundir mikilvægir þá eru nær allir sammála því en einn er ósammála því.  Allir foreldrar telja að komið sé til móts við umönnunarþarfir barna þeirra og eru ánægðir með þær aga- og hegðunarreglur sem notaðar eru í leikskólanum.  Lang flestir foreldrar telja að hæfilega mikið sé af viðburðum þar sem foreldrum er boðið sérstaklega að koma í leikskólann en einhver bætir við að þessi spurning eigi ekki við þar sem Covid 19 hefur verið undanfarið ár en það hefur sett foreldrum skorður að taka þátt í viðburðum.  Allir eru ánægðir með matseðil skólans en eitt foreldri saknar þess að hann hefur ekki ekki alltaf verið settur inn á heimasíðuna.  Almenn ánægja er með þær samskipta- og hegðunarreglur sem notaðar eru í leikskólanum og einn segist gjarnan vilja sá þær listaðar á blaði.  Allir foreldrar nema tveir telja sig fá tækifæri til að ræða við starfsfólk leikskólans um hvernig unnið er saman að uppeldi barnanna.  Eitt foreldri telur að námsefni leikskólans sé ekki við hæfi barnsins síns en allir aðrir telja að námsefni sé við hæfi.  Þrír foreldar eru óánægðir með húsnæði leikskólans og leikaðstöðu innandyra.  Eitt foreldri segir: „ leikrými á yngri deildinni virkar pínu þröngt en krakkarnir virðast ánægð“.  Varðandi leikaðstöðu úti eru allir nema tveir ánægðir og skrifar eitt foreldri:  „rólóinn fyrir framan skólann er of lítill og nýi leikvöllurinn vestan við skólann mætti ekki koma honum meira í gagnið þar er gras sem mér finnst alveg vanta á rólóinn fyrir framan skólann“.  Annað foreldri skrifar:  „mætti vera snyrtilegri aðkoma, oft/drasl í gangveginum, brotið dót, hlið og alls konar.  Svo mætti vera leikaðstaða á grasi“.  Þegar spurt er um umferðaröryggi telja allir nema þrír að það sé í lagi.  Eitt foreldri sem er nokkuð ósammála skrifar: „ Það á eftir að klára bílastæði og gangbrautir tengd því, merkingar eru ekki réttar miðað við nýtt skipulag á bílaplani.  Mikið um að foreldrar séu að skilja bíla eftir í gangi þegar það fer inn með börnin sín.  Starfsfólk leikskóla mætti venja sig á að leggja lengst frá, svo það sé pláss fyrir foreldra sem eru að koma með og ná í börnin sín, en þá á móti á eftir að merkja svæðið upp á nýtt....  Einnig við stiga upp á efri deild að framan þar mætti gjarnan fjarlægja þá steina sem skaga fram fyrir tröppurnar þannig að ef barn myndi detta fram af handriðið að það myndi detta á gras en ekki stórgrýti“.

 

  Allir foreldrar sem svara eru ánægðir með stjórnun deildarinnar og telja að auðvelt sé að ná samband við deildarstjóra.   Einnig telja allir að leikskólanum sé vel stjórnað og það sé auðvelt að ná sambandi við leikskólastjóra.  Allir eru sammála því að samvinna leik- og grunnskóla sé góð.  Þegar spurt var um dagskipulag deildarinnr voru allir ánægðir með það en eitt foreldri segist ekki vita það og annað skrifar: „börnin mættu fara meira út þó það sé ekki sól og logn“.   Margir foreldrar hafa kynnt sér skóladagatal skólans en fjórir segjast ekki hafa gert það og fimm foreldrar á deildinni hafa ekki kynnt sér skólanámskrána.  Þeir foreldrar sem hafa kynnt sér skólanámskrána telja hana skýra og greinagóða.

Að lokum var opin spurning þar sem foreldrar gátu tekið fram með hvað þeir eru sérstaklega ánægðir með í leikskólanum eða hvort eitthvað mætti betur fara.  Eða láta eitthvað annað koma fram.

„Ef börnunum mínum líður vel og hlakkar til að fara í leikskólann, þá er ég mjög ánægður“

„Mér finnst of mikið af biblíusöngvum í leikskólanum.  Við erum ótrúuð og vildum meira hlutleysi hvað varðar trú“.

„Reglulegri endurnýjun leikefnis og markvissari hugsun í því“

„Gott utanumhald um barnið – góð samskipti þegar eitthvað kemur uppá og reyna eins og hægt er að láta barninu líða vel og eru í góðum samskiptum við foreldra – góð samvinna milli foreldra og deildarstjóra“

„Ég er mjög ánægð með allt.  Barninu mínu er ekkert sérstaklega vel við utanaðkomandi aðila en hefur tekið starfsfólki á leikskólanum vel og á sínum tíma án pressu“

„Allt gott“

„Everything is good“

„Gott viðmót starfsmanna“

„Það mætti taka betur til eftir hvern dag á litla leiksvæðinu fyrir framan neðri deildina, þar liggja leikföng úti í öllum veðrum og þá á ég sérstaklega við um tréleikföng sem þola ekki að vera úti í öllum veðrum, ég hef séð trévagna bara morkna í sundur þarna og oft frekar draslaralegt á svæðinu... einnig þessi harmonikkuhlið, picknik borð o.fl. þarf viðhald og umhyggju“

„Þið eruð að standa ykkur vel“

 

 

Úrbótaáætlun vor 2020 - foreldrar          

Markmið

Leiðir

Tímamörk

Ábyrgðarmaður

Árangur

Bæta leikaðstöðu utandyra

Útbúa leikaðstöðu með meiri grasi

Sumar 2020

Leikskólastjóri / Eignaumsjón

Kominn nýr völlur.

Bæta umferðaröryggi við skólann

Merkja stæði, hagræða umferð, bæta lýsingu.

Sumar 2020

Eignaumsjón

 Komið að hluta til vor 2021.  Verður vonandi klárað sumar 2021.

Kynna aga- og hegðunarreglur fyrir foreldrum

Setja upplýsingar á heimasíðu skólans

Haust 2020

Leikskólastjóri

Ánægja með þetta vor 2021 en unnið verður samt áfram með þennan þátt áfram næsta skólaár.

Bæta upplýsingastreymi frá skólanum

Setja upplýsingar frá starfinu á heimasíðu skólans

Haust 2020

Leikskólastjóri/ aðstoðarleikskólastjóri/ deildarstjórar

Komið vor 2021

 

 

Úrbótaáætlun vor 2021 - foreldrar          

Markmið

Leiðir

Tímamörk

Ábyrgðarmaður

Árangur

Bæta umferðaröryggi við skólann

Merkja stæði, hagræða umferð, bæta lýsingu.

Sumar 2021

Eignaumsjón

 

Kynna aga- og hegðunarreglur fyrir foreldrum

Setja upplýsingar á heimasíðu skólans

Námskeið fyrir starfsmenn

áramót 2021-22

Leikskólastjóri