Frumstefnumótun í málefnum leik- og grunnskóla á sér stað á Alþingi og í ráðuneytum þar sem sett eru lög og samdar reglugerðir og námskrár. Í lögum um leikskóla nr. 90/2008 og grunnskóla nr. 91/2008 er sveitarfélögum gert skylt að marka stefnu um leik- og grunnskóla sem rúmast innan laga og reglugerða og tekur mið af áherslum og aðstæðum í sveitarfélaginu. Þannig myndast grunnur sem skólastefna sveitarfélaga byggir á.
Skólanámskrár leik- og grunnskóla sveitarfélaga byggja á lögum, reglugerðum, námskrám og skólastefnu sveitarfélaga.
Sveitarfélagið Ásahreppur og sveitarfélagið Rangárþing ytra hafa stofnað byggðasamlagið Odda bs. um rekstur leik- og grunnskóla sveitarfélaganna. Um er að ræða Leikskólann Laugalandi, Leikskólann Heklukot, Grunnskólann Hellu og Laugalandsskóla. Sveitarfélögin líta á hvern skóla sem sjálfstæða einingu en hafa ákveðið að móta sameiginlega skólastefnu sem nær til beggja skólastiga.
Skólastefnan nær einnig til tónlistarnáms í Tónlistarskóla Rangæinga sem starfar eftir reglugerð fyrir skólann. Tónlistarskólinn er rekinn af öllum sveitarfélögum sýslunnar.