Áfalla- og viðbragðsáætlun

Áfallaáætlun

Áföll:  
Það er stefna Leikskólans á Laugalandi að bregðast vel og rétt við þeim áföllum sem nemendur og starfsmenn skólans kunna að verða fyrir jafnt innan skólans sem utan.  Einnig þurfa starfsmenn að geta brugðist við þeim áföllum sem mæta byggðarlaginu í heild. 

Sem dæmi um þau áföll sem hér um ræðir má nefna: 

- Alvarleg slys eða dauðsföll nemenda, foreldra þeirra og náinna ættingja.
- Alvarleg slys eða dauðsföll á meðal starfsmanna.
- Langvarandi veikindi.
- Slys í vettvangsferðum.
- Skilnaður foreldra.
- Atvinnumissir foreldra.
- Önnur áföll sem upp kunna að koma.

Viðbrögð við áfalli:
Þegar brugðist er við áföllum líkum þeim sem talin eru upp hér að ofan þarf að taka tillit til aðstæðna hverju sinni.  Mismunandi getur verið hvernig brugðist verður við þ.e. hvort áfallið verður á skólatíma eða utan skólatíma.  Ef áfallið verður á skólatíma þarf að bregðast mjög skjótt við til þess að aðstoða börn og starfsmenn sem fyrir áfallinu verða.  Í slíkum tilfellum er ákvörðun um viðbrögð í höndum skólastjórnenda í samráði við það starfsfólk sem er til staðar.  Ef áfallið verður utan skólatíma gefst meiri tími til undirbúnings og auðveldara ætti að vera að ná til fagfólks til aðstoðar ef þurfa þykir.

1 - Slys og dauðsföll nemenda:
Ef upplýsingar berast til skólans um að nemandi hafi slasast illa eða látið lífið t.d. vegna sjúkdóms eða slysfara verður strax leitað eftir staðfestingu á atburðum hjá fjölskyldu, heilsugæslu, sóknarpresti eða lögreglu.  Þegar staðfesting hefur fengist eru starfsmenn skólans látnir vita eins fljótt og auðið er (hringt í starfsmenn ef þeir eru ekki í vinnu).  Haft er samband við sóknarprest og hann beðinn um að koma í leikskólann og ræða við nemendur og starfsmenn.  Sóknarprestur segir nemendum frá atburðum, kveikt er á kerti og hins slasaða/látna minnst með bæn.  Sóknarprestur dvelur í skólanum í nokkurn tíma til þess að vera til taks fyrir þá sem þess þurfa.  Ef ekki næst í sóknarprest sinna skólastjórnendur upplýsingahlutverkinu.  Reynt er eftir föngum að halda dagskipulagi.  Starfsmenn aðstoða elstu börn leikskólans við að útbúa samúðarkort og / eða  kveðjur.  Skólastjórnendur heimsækja fjölskyldu og færa blóm og kveðjur frá skólanum.  Flaggað er í hálfa stöng við andlát.

2 - Slys og dauðsföll foreldra og náinna ættingja:
Ef upplýsingar berast til skólans um að foreldrar, systkini eða aðrir nákomnir ættingjar hafi slasast illa eða látið lífið t.d. vegna sjúkdóms eða slysfara er leitað eftir staðfestingu á atburðum.  Þegar staðfesting hefur fengist um að foreldrar eða systkini hafi slasast eða látist, er gripið til álíkra ráða og segir í lið 1. 
Ef um aðra nákomna ættingja eða vini er að ræða er leitað eftir samráði við fjölskyldu um á hvern hátt brugðist er við.  Viðbrögð í slíkum tilvikum getur verið talsvert mismunandi.  Þar getur spilað inn í hversu náin tengsl eru á milli aðila.  Hér þurfa að koma til væntingar og upplýsingar frá fjölskyldu um tilfinningar og upplifun barnanna af viðkomandi atburðum.

3 - Slys og dauðsföll á meðal starfsmanna:
Ef upplýsingar berast til skólans um að starfsmenn eða aðrir aðilar sem tengjast skólanum náið hafi slasast illa eða látist er leitað eftir staðfestingu á atburðum.  Um viðbrögð innan skólans er farið eftir sama ferli og um getur í lið 1. 

4 – Langvarandi veikindi á meðal nemenda eða veikindi á heimilium þeirra:
Ef upplýsingar berast til skólans um að nemendur eða nánustu ættmenn þeirra þjáist af langvarandi alvarlegum sjúkdómum er upplýsingum komið á framfæri við starfsmenn. Upplýsingar sem færðar eru nemendum eru ákvarðaðar í samráði við foreldra eða forráðamenn.

5 – Slys í vettvangsferðum:
Í öllum vettvangsferðum eru nemendur undir eftirliti starfsmanna leikskólans.  Ef nemandi verður fyrir slysi í vettvangsferð mun starfsmaður meta aðstæður og alvarleika slyssins.  Ef slysið er alvarlegt hefur starfsmaður strax samband við neyðarlínu í síma 112, eða lækni sem vitað er um í nágrenni við slysstað.  Starfsmenn á vettvangi hafa samband við skólastjórnendur eins fljótt og auðið verður og veita upplýsingar um ástand hins slasaða og hvert ráðgert sé að flytja hann til aðhlynningar.  Skólastjórnendur munu þá þegar hafa samband við foreldra viðkomandi nemanda og liðsinna þeim eftir föngum.  Ef slysið er mjög alvarlegt er að mestu fylgt viðbragðsplani samkvæmt lið 1.

6 - Önnur áföll: 
Undir liðin önnur áföll má flokka áföll s.s. skilnað foreldra, atvinnuleysi þeirra, eldsvoða á heimili, o.fl.
Um leið og upplýsingar berast um slík áföll eru starfsmenn upplýstir um stöðu mála.  Starfsmenn styðja við bakið á nemendum eins og kostur er.  Á slíkum stundum þurfa börnin að fá mikinn stuðning og skilning frá starfsfólki.
Einnig mun skólinn bregðast við áföllum sem kunna að dynja yfir samfélagið í heild sinni.  Hvort heldur að um sé að ræða náttúruhamfarir, slys, farsóttir eða önnur þau áföll sem kunna að ganga yfir það samfélag sem hann þjónar (sjá viðbragðsáætlun skólans).

7 – Almennt um aðstæður í skólanum:
Stefnt er að því að allir starfsmenn skólans séu vel undirbúnir á að takast á við þau áföll sem mætt geta þeim í starfi.  Skipulögð verða námskeið fyrir alla starfsmenn um sorg og sorgarviðbrögð þar sem farið er yfir helstu viðbrögð og aðgerðir innan skólans.  Á bókasafni skólans verður tryggt að til sé skrá yfir bækur er fjalla um sorg og sorgarviðbrögð.  Einnig verður þar sérstök skrá yfir bækur sem gott er að lesa fyrir börn, þegar tekist er á við þá óvissu og sorg sem fylgir áföllum og slysum.

 Umhverfi og slysavarnir
Það er stefna á Leikskólanum Laugalandi  að allt starfsumhverfi hans sé hættulaust, jafnt fyrir nemendur og starfsmenn.  Það er einnig stefna skólans að allir starfsmenn hans hafi þekkingu á og æfi rétt viðbrögð við hvers konar vá sem yfir getur dunið á skólatíma. 

Stefnt er að því að leikvöllurinn sé skipulagður með þarfir nemenda í huga.  Leikvöllurinn og leiktæki skólans þurfa að vera aðlaðandi og þannig úr garði gerð að þau skapi ekki hættur.  Í þeim málum er reynt að fylgja gildandi lögum og reglugerðum um
um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim. (lög 942/2002).

Það er krafa að allt umhverfi leikskólans þ.m.t. leiksvæði, göngustígar og almennt aðgengi að skólanum sé vel upplýst í skammdeginu. Það er einnig krafa að stöðugt sé unnið að hálkueyðingu á skólalóð og öðrum ferðaleiðum nemenda, foreldra og starfsmanna þegar þurfa þykir. 
Unnið er að því að lagfæra skólahúsið ef á þarf að halda en áhættumat er gert einu sinni á ári til að ganga úr skugga um að allt sé í lagi.  Haft er að leiðarljósi að skólahúsið hæfi þeim nemendum sem þar eru hverju sinni og að þar leynist ekki slysagildrur.  Í útiveru eru starfsmenn ávallt með börnunum og fer fjöldi starfsmanna eftir gerð og stærð barnahópsins hverju sinni.  Öryggisvesti á börnin eru notuð þegar það á við í vettvangsferðum.  Allir starfsmenn skólans skulu hafa undirstöðuþekkingu í skyndihjálp og slysavörnum. 


Viðbragðsáætlanir gegn vá

Rýmingaráætlun

Í skólastarfi þar sem nemendur starfa daglega saman auk starfsmanna, þarf að gera ráð fyrir að óvæntir og hættulegir atburðir geti komið upp.  Við slíkum atburðum verður skólinn að geta brugðist eins vel og faglega og kostur er.  Í sumum tilfellum getur þurft að rýma skólahúsið í skyndi þ.e. til þess að forða nemendum og starfsmönnum frá hættu sbr. ef upp kemur eldur á skólatíma og brunabjalla hringir og eins ef jarðskjálftar dynja yfir.  Ef rýma þarf leikskólann skyndilega þá hafið eftirfarandi atriði í huga:  

  1. Ath. aðstæður og hvar næsta flóttaleið sé en þær eru merkta yfir gluggum/dyrum.
    1. Gluggi í Listalandi
    2. Gluggi í Draumalandi
    3. Aðalinngangur leikskólans
    4. Tröppuland – dyr út að íþróttasal
    5. Starfsmenn reyna að halda ró sinni og aðstoða börnin eftir föngum
    6. Hver starfsmaður fer út með þann hóp sem hann sér um þegar bjallan hringir (ekki er hugsað um að fara í skó, hlífðarföt eða taka dót með sér)
    7. Sá starfsmaður sem er næst kladdanum tekur hann með sér út ásamt skriffærum
    8. Komið saman á söfnunarsvæði sem er leikvöllur leikskólans (allir).  Gert manntal til þess að fullvissa um að allir séu komnir út.
    9. Ef slys hefur orðið eða ef einhverra er saknað verður það tilkynnt til björgunaraðila eins fljótt og unnt er.  Starfsmenn munu að sjálfsögðu hefja aðgerðir til aðstoðar eins og aðstæður leyfa. Tryggja verður þó að slíkar aðgerðir orsaki ekki meiri hættu.

 

(Athugið að eins getur þurft að rýma skólann ef nota þarf skólahúsnæðið sem fjöldahjálparstöð, en Laugaland er skráð sem fjöldahjálparstöð sem áætlað er að sé starfræk undir stjórn Rauðakross Íslands.   Fjöldahjálparstöð er  m.a. opnuð ef taka þarf á móti fólki úr nærsveitum, sem yfirgefa þarf heimili sín og eða vinnustaði í skyndi vegna aðsteðjandi hættu.)
 

Jarðskjálfti á skólatíma 
Ef jarðskjálfti dynur yfir á skólatíma ber starfsfólki að hjálpa börnum við að skýla sér og leita skjóls undir borðum og að öðru leyti að hlífa sér eftir föngum.  Húsnæðið er síðan rýmt samkvæmt rýmingaráætlunEf illviðri geisar þegar jarðskjálfti ríður yfir verður reynt að leita skjóls í nágrenni skólans. Varast ber þó að leita skjóls undir háum húsveggjum og í nágrenni við glugga.  Starfsmenn skólans munu annast um nemendur uns þeir verða sóttir af foreldrum eða forráðamönnum.  Ef jarðskjálfti verður í útiveru og börnin eru í vettvangsferð í nærumhverfi leikskólans en ekki á leikvellinum verða nemendur látnir safnast saman á söfnunarsvæðinu (leikvellinum) og hefðbundið ferli fer í gang. 

Bruni
Ef eldur verður laus í skólahúsnæðinu eða ef eldvarnarkerfið gefur slíkt til kynna verður skólinn rýmdur tafarlaust.  Í hverju rými er spjald sem sýnir öruggustu rýmingarleiðirnar.  Nemendur og starfsmenn yfirgefa skólann og safnast saman á söfnunarsvæði.  Allt dót er skilið eftir (nema kladdi og ritföng) og hugsað um það eitt að komast út á öruggan hátt.  Nemendur og starfsmenn fara eftir gildandi ráðleggingum um rýmingu húsnæðis í eldsvoða t.d. með því að kanna hitastig og stöðu elds og reyks í húsnæðinu.  Ef ferðast þarf um rými sem reykur er í verður reynt að tryggja að nemendur fari með gólfum.  Á söfnunarsvæði er gert manntal til þess að tryggja að enginn hafi orðið eftir inni.  Bruni er tilkynntur á hefðbundinn hátt til Neyðarlínu.  Á meðan beðið er eftir slökkviliði annast starfsmenn skólans nemendurna og koma þeim í skjól í nærliggjandi byggingum.  Starfsmenn reyna síðan eftir föngum að tryggja að allir nemendur komist til síns heima með öruggum hætti.

Óveður 
Ef fella þarf niður skóla vegna óveðurs, verður það tilkynnt í tölvupósti eða smáskilaboðum eins fljótt og hægt er.  Þegar óveður geisar við upphaf skóladags, þá er það alfarið á ábyrgð foreldra hvort þeir senda börn sín í leikskólann eða ekki.  Slík forföll ber að tilkynna eins og önnur forföll. Ef óveður skellur á á skólatíma og foreldrar komast ekki sjálfir að sækja börn sín verður nemendum ekki hleypt heim nema í öruggri fylgd aðila sem foreldrar ábyrgjast eða björgunarsveitarfólki.  Kennarar og aðrir starfsmenn skólans munu annast nemendur þar til þeir komast heim. 

Önnur vá s.s. eldgos, flóð, eitranir, hryðjuverk o.fl. 
Um aðra vá sem dunið getur yfir samfélagið á skólatíma gilda hefðbundin viðbrögð sem snúast fyrst og fremst að því að tryggja nemendum sem mest öryggi.  Ætíð verður reynt að vinna úr öllum slíkum málum í samráði við foreldra, lögreglu, björgunarlið eða hvern þann aðila sem komið getur að liði. 

Fjöldahjálparstöð
Laugaland er fjöldahjálparstöð; Slík stöð gæti verið opnuð ef einhverjir þeir atburðir gerast sem ógnað geta lífi og velferð íbúa á Suðurlandi.  Sem dæmi um slíka atburði má nefna jarðskjálfta, flóð og öskufall frá eldgosum, bruna eða hrun fjölmennra bygginga og hópslys af einhverju tagi svo að eitthvað sé nefnt.  Ef nauðsyn er til að opna fjöldahjálparstöð í skólahúsnæðinu á skólatíma, verða nemendur sendir heim í samráði við foreldra (þarf að taka tillit til aldurs).  Starfsmenn skólans munu gæta þess að þeir nemendur sem sendir verða heim verði í engum tilfellum sendir inn á skilgreind hættusvæði.

Æfingar
Ráðgert er að nemendur og starfsmenn taki þátt í æfingum í viðbrögðum við ofangreindum hættum.  Leitast verður við að hafa samráð við fagaðila um skipulag og úrvinnslu æfinganna. 

Neyðarupplýsingar
Mikilvægt er fyrir starfsemi skólans að hafa staðgóðar upplýsingar um hvar hægt sé að ná í aðstandendur nemenda ef slys eða aðra vá ber að höndum á skólatíma.  Einnig er mikilvægt að fá vitneskju um hvort nemendur séu haldnir einhverjum líkamlegum kvillum sem hugsanlega geta truflað þá í leik og starfi.  Neyðarupplýsingar eru geymdar í „kladda“ skólans. 

Lokun Leikskóla
Ef húsnæði leikskólans hefur orðið fyrir tjóni vegna bruna eða náttúruhamfara og stenst ekki kröfur reglugerða varðandi öryggi barna skal honum lokað.   Tekið verður á móti börnum aftur í leikskólann um leið umhverfi og öryggi barna er tryggt.