Jákvæður agi (positive Discipline)
Í starfi okkar í Leikskólanum Laugalandi leggjum við til grundvallar uppeldisstefnu sem nefnist Jákvæður agi (Positive Discipline). Stefnan byggir á sjálfsstjórnarkenningum, sem fela það í sér að horft er á orsakir hegðunar fremur en að reyna að breyta hegðuninni með umbun og refsingu eins og lengi hefur tíðkast með ýmsum atferlismótunarkerfum sem hafa verið ráðandi í skólakerfinu um langan tíma. Jákvæður agi gengur út á það að móta skólabrag sem einkennist af umhyggju og byggist á gagnkvæmri virðingu, reisn, vinsemd og festu.
Meginreglur jákvæðs aga hjálpa til við að byggja upp samband væntumþykju og virðingar og þær auðvelda að finna lausnir til frambúðar. Börn verða ábyrgðarfull ef þau fá tækifæri til að þroska félagsfærni sína í gegnum lífsleikni í andrúmslofti virðingar, góðvildar og festu. Jákvæður agi byggir á því að börn þroski og efli með sér færni í að finna lausnir og setja sér mörk í samvinnu við fullorðna.
Í jákvæðum aga eru ýmis verkfæri sem við notum í dglegu starfi. Þar má nefna barnafundi, lausnahjól, jákvæða einveru, vinnu með tilfinningar og að bjóða tvo kosti.
Börn verða ábyrgðarfull ef þau fá tækifæri til að þroska félagsfærni sína í gegnum lífsleikni í andrúmslofti virðingar, góðvildar og festu. Jákvæður agi byggir á því að börn þroski og efli með sér færni til að finna lausnir og setja sér mörk í samvinnu við fullorðna.
Jákvæður agi er uppeldisstefna byggð á sjálfsstjórnarkenningum og eru höfundar:
Alfred Adler, Rudolf Dreikurs, William Glasser, Jane Nelsen o.fl.
Það sem stýrir hegðun:
Fólk er knúið áfram af innri þörfum – að tilheyra.
Við höfum mest áhrif:
þegar við höfum samskipti sem byggjast á gagnkvæmri virðingu.
Áhrifamestu verkfærin eru:
samhygð, skilningur, þrautalausnir, góðvild og festa.
Virðing er:
gagnkvæm, í samskiptum eiga allir aðilar skilið virðingu.
Viðbrögð við óæskilegri hegðun:
Að leita orsaka, finna lausnir og fylgja ákvörðunum eftir.
Viðbrögð við hættulegri hegðun:
Skýr eftirfylgd og rökréttar afleiðingar.
Nám fer fram þegar:
barn upplifir tilgang, sjálfsstjórn, þátttöku.
Lykilhugtök í jákvæðum aga eru:
Virðing, góðvild og festa. Virðingin endurspeglast í þeirri kurteisi sem fólk sýnir hvert öðru, hvernig það talar við aðra og um það og hvernig það fer með eigur annarra. Tal og framkoma sem einkennist af virðingu veitir fólki þá reisn sem því ber. Góðvild er að sýna væntumþykju og hlýju í verki en ekki að skamma, niðurlægja eða lesa yfir öðrum og festa felst í því að standa við það sem sagt er og sjá til þess að fyrirfram ákveðnum verkefnum verði lokið.
Grunnþarfir eru:
Að tilheyra eða skipta máli og vera einhvers virði. Mikilvægt er fyrir börnin að vita að þau séu viðurkennd fyrir það hver þau eru í stað þess að einblínt sé á hvað þau geta eða hvernig þau hegða sér.
Skilningur á eigin getu eða hæfileikum. Börn átta sig á eigin getu og hæfileikum þegar þau fá tækifæri til að spreyta sig sjálf og æfa ákveðna færni eða getu. Þegar þau upplifa hvað þau ráða við eykur það skilning þeirra á eigin getu og hæfileikum.
Persónulegt vald og sjálfstæði. Þegar börn fá tækifæri til að leita lausna, læra lífsleikni, sýna virðingu og vinna með öðrum upplifa þau persónulegt vald og sjálfstæði.
Félagsfærni og lífsleikni. Börn þurfa kennslu í samskiptum og félagsfærni auk kennslu í lífsleikni. Með kennslu og æfingu öðlast þau færni. Vandamál leysast á mun auðveldari hátt þegar börnin taka þátt í lausnaleit.
Í jákvæðum aga er mikilvægt að kenna börnunum að leita lausna. Losna við sektarkennd, skömm og ásakanir eftir að þau hafa gert mistök. Að geta beðist afsökunar á mistökum og fundið út í sameiningu hvernig hægt er að læra af þeim bætir oft samskipti og þau geta orðið betri heldur en þau voru áður en mistökin voru gerð.
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir hvaða áhrif uppeldisaðferðir hafa. Þær aðferðir sem notaðar eru ættu að hafa jákvæð og uppbyggjandi langtímamarkmið. Refsing getur til að mynda stöðvað ákveðna hegðun um stund en aftur á móti getur hún leitt til lítils sjálfsálit, skorts á hugrekki og sjálfsöryggi, uppreisnar, hefndar og ótta við að mistakast. Í kjölfarið gætu samskipti einkennst af valdabaráttu eða hefnd.
Börn þróa ekki með sér ábyrgðarkennd ef fullorðnir eru of stýrandi og stífir. Ekki heldur ef þeir eru of eftirgefanlegir. Börn verða ábyrgðarfull ef þau fá tækifæri til að þroska félagsfærni sína í gegnum lífsleikni í andrúmslofti virðingar, góðvildar og festu.
Að spyrja börn er áhrifarík leið í samskiptum. Hægt er að umorða setningar í spurningar og það er auðvelt að koma skilaboðum áleiðis í formi spurninga. Dæmi: að í stað þess að segja barni að fara í úlpu eða kuldagalla með skipandi hætti „farðu í úlpuna“ að spyrja barnið. „Hvað þarft þú að fara í svo þér verði ekki kalt“? Barnið mun fljótt sjá hvað það þarf að klæða sig í svo því verði ekki kalt.
Barnafundir eru haldnir með börnunum frá ca 3. ára aldri í leikskólanum. Stundir þar sem börn sitja í hring er hefðbundið form í leikskólum, börnin syngja, það er lesið fyrir þau og farið í litla leiki. Ef kennarar nýta þessar stundir vel og á ígrundaðan hátt, geta þær gefið börnunum tækifæri til að upplifa að þau tilheyri barnahópnum og um leið þroskast tilfinningaleg og félagsleg færni, þ.m.t. samkennd, sjálfsstjórn, góðvild og lausnaleit. Þetta eru jafn mikilvægir þættir og hefðbundið nám seinna meir. Barnafundir sem eru einfaldir að formi eftir aldri og þroska barnanna kenna börnunum m.a.
Eitt af mikilvægustu markmiðum barnafunda er að gefa börnum tækifæri til að láta rödd sína heyrast og að veita þeim möguleika á að hjálpa öðrum. Kennarar þurfa að vera vera til staðar og tengdir, kenna ákveðna færni og leiðbeina og gefa börnunum tækifæri til að taka þátt við hvert tækifæri, jafnvel þegar þau virðast ekki alveg vera tilbúin eða þegar þau endurtaka hrós eða tillögur sem þegar hafa komið fram. Það hvorki hjálpar né er viðeigandi að skamma eða „aga“ barn sem er að reyna að læra nýja færni. (Í þessu tilviki er orðið „agi“ á þann hátt sem það er gjarnan notað, sem samheiti yfir refsingu.)
Tímasetning funda er mikilvæg, tími ræðst af stemmningunni í barnahópnum, getu barnanna og athyglisspön. Hægt er að einbeita sér að einum dagskrárlið fundar á hverjum fundi. Dagskrá, innihald og lengd fundar er ekki eins mikilvæg og það sem barnafundir þroska með börnunum; að þau tilheyri, að þau leggi sitt af mörkum og fái hvatningu. Mikilvægt er að nota handbrúður, söngva, sögur, málsteina og aðra leikmuni sem námstækifæri fyrir leikskólabörn. Jafn mikilvægt er að slaka á, hlægja saman, leika saman og læra saman.
Hvatning og hrós
Hvatning hjálpar börnum að þroska hugrekki; hugrekki til að læra og vaxa, hugrekki til að læra af mistökum án sektar og skammar, hugrekki til að þroska félagshæfni og lífsleikni. Hvatning þarf að vera nákvæm en ekki óljós, „þú byggðir stóran turn, sjáðu hvað þú þurftir að teygja þig mikið til að geta sett efstu kubbana í turninn því hann er stærri en þú“. Þetta hvetur barn mun meira en að segja „þetta er aldeilis fínt hjá þér“.
Tengsl í heilahveli hafa áhrif á hegðun okkar. Við verðum að vera í jafnvægi til að geta hugsað rökrétt. Það gerum við ekki þegar við erum taugaóstyrk, undir miklu álagi eða erum að fást við sársaukafullar minningar eða atburði. Einstaklingur í þessu ástandi hefur takmarkaða stjórn á hegðun sinni og viðbrögðum. Því er mikilvægt að fá tækifæri til að jafna sig og ná ró svo hægt sé að beita aftur rökhugsun, þá er hægt að taka skynsamlegar ákvarðanir, þá er hægt að kenna og læra. Þess vegna hafa börnin „griðarstað“ í leikskólanum þar sem þau geta valið að fara til og vera þar til þeim líður betur.
Hér fyrir neðan eru nokkur verkfæri jákvæðs aga sem geta hjálpað okkur að forðast refsingar, ofverndun, stjórnun, valdabarátti, ósjálfstæi eða hefnd.
Verkfæri fyrir 0-3 ára börn.
Verkfæri fyrir 3 ára börn og eldri.
Hér má finna handbók jákvæðs aga