Fatahólf og fatnaður

Fatahólf og fatnaður

Leikskólinn er vinnustaður barnanna og á fjörugum vinnustað má alltaf gera ráð fyrir óhöppum af ýmsum toga. Við vinnum með lím, málningu og ýmis efni sem sest geta í föt barnanna. Klæðnaður barnanna þarf því að vera þannig að á honum megi sjá. Gott er að fötin séu víð og þægileg þannig að börnin geti hreyft sig auðveldlega og einnig til að þau eigi auðvelt með að klæða sig sjálf í og úr þar sem sjálfshjálp er liður í markmiðum leikskóla. Sérstaklega þarf að huga að þessu þá daga sem  börnin fara í íþróttir.

Mikilvægt er að börnin séu klædd eftir veðri og hafi þann klæðnað meðferðis sem gera má ráð fyrir að þau þurfi á að halda hvern dag. Það sem þarf að vera í fatahólfi eða körfu barnsins er: föt til skiptanna, s.s. nærbuxur, bolur, sokkar/sokkabuxur, síðbuxur og peysa. Pollagalli og stígvél eru nauðsynleg og síðan snjógalli, hlý peysa, vettlingar til skiptanna, húfa og ullarsokkar þegar það á við.  Foreldrar eru beðnir um að taka töskur úr hólfum barna sinna og hafa sem minnst hangandi þar og aukaföt í körfu.  Foreldrar þurfa reglulega að fara yfir körfu barnsins og fara yfir hvað vantar og bæta í eftir þörfum. Með þessari aðstoð eiga börnin auðveldara með að hjálpa sér sjálf en það er liður í uppeldi barnanna í leikskólanum að ganga snyrtilega um og hirða vel um fötin sín. Foreldrar auðvelda starfsfólki og börnum það verk, með því að hugsa vel um hólf barna sinna.  Athugið að leikskólinn er ekki með aukaföt til að lána.

 

Athugið að það þarf að koma með bleiur að heiman í leikskólann fyrir þau börn sem nota þær.  Til þess að foreldrar þeirra barna viti hvenær bleiur eru að verða búnar, er settur er miði í hólf barnsins, til áminningar svo foreldrar geti komið með nýjar.

 

Hólfin á síðan að tæma alveg á föstudögum til þess að hægt sé að þrífa þau.

 

Nauðsynlegt er að merkja föt barnanna, þá er minni hætta á að þau týnist.