Foreldraráð/ foreldrafélag

Foreldrafélag

Við leikskólann er starfrækt foreldrafélagið „Hans og Gréta“  og er aðalfundur félagsins haldinn að hausti. Fjórir foreldrar sitja í stjórn. Leikskólastjóri er tengiliður leikskólans við foreldrafélagið og situr fundi þess þegar þess er óskað. Í foreldrafélaginu eru allir foreldrar sjálfkrafa félagar og greiða þangað gjald sem er innheimt með gíróseðli. Markmið foreldrafélagsins er að standa vörð um hagsmuni barnanna og standa fyrir fræðslu, skemmtun og tilbreytingu fyrir börnin og foreldrana, sem fellur utan ramma hins daglega leikskólastarfs.

Foreldrafélagið  stendur fyrir leiksýningu fyrir börnin a.m.k. einu sinni á ári og jólaföndri í lok nóvember eða byrjun desember. Einnig kemur félagið að vorhátíðinni með því að halda grillveislu fyrir börnin og fjölskyldur þeirra í byrjun júní. Aðal fjáröflunarleið félagsins, fyrir utan félagsgjöld hefur verið kökubasar á Aðventuhátíðinni að Laugalandi fyrsta sunnudag í aðventu og öskudagsskemmtun á öskudaginn í matsal grunnskólans.

Foreldrafélagið hefur verið leikskólanum mikill stuðningur og gefið ýmis tæki og leikföng sem hafa komið sér ákaflega vel fyrir skólann.

Foreldraráð

Við leikskólann er starfandi foreldraráð og er það skipað fjórum foreldum. Hlutverk foreldraráðs er að gefa umsagnir til leikskóla og fræðslunefndar, sbr. 2. mgr. 4. gr., um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans. Þá skal ráðið fylgjast með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana innan leikskólans og kynningu þeirra fyrir foreldrum. Foreldraráð hefur umsagnarrétt um allar meiriháttar breytingar á leikskólastarfinu.

Í foreldraráði (og foreldrafélagi) skólaárið 2020-2021 eru:

Sóley Ösp Karlsdóttir - formaður

Margrét Ólafsdóttir - ritari

Ragna Magnúsdóttir - gjaldkeri

 

Starfsreglur foreldraráðs Leikskólans Laugalandi 

1. grein
Foreldraráð leikskólans Laugalandi starfar samkvæmt ákvæðum 11. gr. laga um leikskóla nr. 90/2008. Í foreldraráði eiga sæti 4 fulltrúar og mega þeir eiga sæti í stjórn foreldrafélags leikskólans Laugalandi.

Reglur þessar gilda um starfsemi foreldraráðs og samskipti þess við skólastjóra, fræðslunefnd, skólaskrifstofu, svæðaráð leikskóla sem og landssamtök foreldra. Þær öðlast gildi við undirskrift þar til bærra fulltrúa í foreldraráði.

2. grein
Aðalfundur foreldraráðs skal haldinn í september ár hvert. Þá skulu kosnir a.m.k. fjórir fulltrúar til setu í foreldraráði til eins árs í senn. Kjörnir fulltrúar taka sæti í foreldraráði þegar að kjöri loknu. Kosningarétt hafa foreldrar/forráðamenn allra barna á leikskólanum.  Til kjörfundar skal boðað með a.m.k viku fyrirvara. Óska skal eftir tilnefningum til ráðsins tímanlega og í síðasta lagi í fundarboði aðalfundar. Á fundinum skal foreldraráð gera grein fyrir starfsemi sinni á liðnu starfsári. Skýrsla foreldraráðs skal birt á vef skólans.

3. grein
Foreldraráðsfulltrúum er skylt að gæta trúnaðar varðandi upplýsingar um einstaklinga, nemendur, kennara eða aðra sem þeir verða áskynja um í starfi sínu. Foreldraráðsfulltrúar undirrita þagnareið því til staðfestingar á fyrsta fundi ráðsins að loknum kjörfundi.  Undantekningu frá þagnarskyldu má einungis gera samkvæmt lagaboði eða af brýnni nauðsyn.

4. grein
Fulltrúar í foreldraráði velja sér formann og skipta með sér verkum (formaður – varaformaður – ritari – varamenn ef við á) á fyrsta fundi ráðsins eftir kosningu hverju sinni og leggja drög að starfsáætlun fyrir næsta skólaár. Formaður undirbýr fundi og boðar til þeirra með dagskrá.

5. grein
Foreldraráð heldur fundargerðarbók. Fundargerðir skulu sendar leikskólastjóra og formanni fræðslunefndar og birtar á vef foreldraráðs sem vistaður er á heimasíðu skólans. Fundir foreldraráðs skulu vera eigi færri en 6 á hverju starfsári og oftar ef þurfa þykir.

6. grein
Starfsreglur leikskólaráðs skulu kynntar foreldrum/forráðamönnum allra barna á leikskólanum og skulu þær birtar í skólanámskrá og á upplýsingavef leikskólans.

Foreldraráð skal hafa sérstakt svæði á heimasíðu skólans til að kynna starfsemi sína og þar skulu einnig koma fram nöfn, heimilisföng, símanúmer og netföng fulltrúa í foreldraráði. Leikskólastjóri ber jafnframt ábyrgð á að skólaskrifstofu/ fræðsluskrifstofu sé tilkynnt um nöfn, heimilisföng og netföng fulltrúa í foreldraráði strax að lokinni kosningu þeirra. Formaður sér um að koma þeim upplýsingum til svæðaráðs foreldra, menntamálaráðuneytis  og Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra.

7. grein
Sameiginlegir fundir leikskólastjóra og foreldraráðs skulu vera í það minnsta tveir á hverju skólaári. Á sameiginlegum fundum leikskólastjóra og foreldraráðs veitir leikskólastjóri upplýsingar varðandi starfsemina og skólahald almennt, breytingar á henni og þróun.

Foreldraráð afhendir leikskólastjóra afrit af erindum og umsögnum er varða skólann og skólahald, þegar þær eru sendar öðrum aðilum.

Foreldraráði er látin í té aðstaða og veittur nauðsynlegur aðgangur að skólahúsnæðinu, búnaði og skrifstofuþjónustu, s.s. prentun, ljósritun og póstdreifingu eftir því sem frekast er unnt.

 8. grein
Foreldraráð getur, eftir þörfum, boðað til sérstakra funda með foreldrum/forráðamönnum eða starfsfólki leikskóla til að fjalla um framkvæmd áætlana um skólahaldið eða einstök mál sem upp koma.

 9. grein
Í maí ár hvert skulu drög að skólanámskrá næsta vetrar tekin til umfjöllunar og umsagnar.  Foreldraráð getur, ef þörf þykir, boðað leikskólastjóra og aðra starfsmenn leikskólans til fundar þar sem farið er yfir námskrána, hún skýrð nánar og foreldraráði gefinn kostur á að bera upp fyrirspurnir.

Foreldraráð gefur skriflega umsögn um skólanámskrá og skal hún send leikskólastjóra og fræðslunefnd eigi síðar en 30 dögum eftir að það fær hana til umsagnar. Með umsögn sinni og athugasemdum getur foreldraráð sett fram tillögur um breytingar á skólahaldi og rekstri leikskólans og óskað eftir að þær verði teknar til umfjöllunar og afgreiðslu.

Aðrar áætlanir sem varðar skólahaldið, s.s. skóladagatal, áætlanir um nýtingu fjármagns, áform um byggingar, viðhald og aðrar framkvæmdir og búnað skóla skulu lagðar fyrir foreldraráð til umsagnar jafnskjótt og þær verða til. Skólaskrifstofa sendir foreldraráði til umsagnar áætlanir sínar í skólamálum áður en ákvarðanir eru teknar.

10. grein
Foreldraráð hlutast til um að áætlanir um skólahaldið þ.m.t. skólanámskrá og einnig umsögn ráðsins um hana sé kynnt öllum foreldrum, m.a. með því að gæta að því að skólanámskrá sé aðgengileg á heimasíðu skólans. Foreldraráðið fylgist með að áætlunum skólanámskrár sé framfylgt.

11. grein
Foreldraráð, í náinni samvinnu við leikskólastjóra og skólaskrifstofu, hlutast til um að kanna með faglegum hætti viðhorf og væntingar foreldra varðandi skólahaldið.  Foreldraráð gætir þess að niðurstöður slíkra kannanna séu kynntar fyrir foreldrum og séu aðgengilegar á heimasíðu skólans. Leiti foreldri/forráðamaður til fulltrúa foreldraráðs skal boðað til fundar í foreldraráði hið fyrsta.

12. grein
Ef foreldrar/forráðamenn eru ósáttir eða hafa athugasemdir um skólahaldið geta þeir komið athugasemdum til foreldraráðs.

Leiti foreldrar/forráðamenn til foreldraráðs skal þeim gerð grein fyrir trúnaðarskyldu, upplýsingaöflun, skráningu máls og hvernig farið er með gögn. 

13. grein
Sé lögum og reglum um leikskóla eða áætlunum um skólahald ekki framfylgt að mati foreldraráðs ber því að tilkynna það til menntamálaráðuneytisins enda hafi ábendingum þess til leikskólastjóra og fræðslunefndar ekki verið sinnt.

14. grein
Reglum þessum má aðeins breyta á aðalfundi, enda séu breytingartillögur kynntar í skriflegri fundarboðun með minnst sjö daga fyrirvara.

Gátlisti fyrir foreldraráð

 • Foreldraráð skal kynna hlutverk og starfsemi ráðsins fyrir foreldrum , meðal annars með útgáfu fréttabréfs, fréttaflutningi á foreldrasvæði heimasíðu skólans og eftir öðrum þeim leiðum sem ráðið telur skynsamlegar hverju sinni.
 • Foreldraráð skal tala við og hlusta eftir röddum foreldra, kennara og annarra starfsmanna
 • Foreldraráð skal kynna sér  leikskólalögin, reglugerðir og reglur um skólahald frá menntamálaráðuneytinu og bera saman við áætlanir sveitarfélags.
 • Foreldraráð skal kynna sér skólanámskrá og bera saman við aðalnámskrá  og leikskólalög. Skila skal umsögn um skólanámskrá til leikskólastjóra og skólanefndar.
 • Foreldraráð skal fara yfir skóladagatal, aðgæta hvort skóladagatal er samræmt milli allra leik- og grunnskóla í sveitarfélaginu. Senda umsögn um skóladagatal til leikskólastjóra og skólanefndar.
 • Foreldraráð skal kynna sér starfsmannastefnu, starfsmannahald og endurmenntunaráætlun leikskólans.
 • Foreldraráð skal kynna sér sjálfsmatsáætlun skólans, fylgjast með framgangi hennar sem og niðurstöðum kannana sem gerðar eru í tengslum við sjálfsmat.
 • Foreldraráð skal kynna sér stefnu leikskólans um samstarf heimila og skóla sem og upplýsingagjöf til foreldra.
 • Foreldraráð skal kynna sér skólahúsnæði, mötuneyti, bókasafn leikskólans og tækjakost. Einnig skal foreldraráð skoða aðkomuleiðir að skólanum og huga að eftirliti með leiktækjum á skólalóð.
 • Foreldraráð skal kynna sér eineltisstefnu leikskólans, áfallaáætlun og forvarnir.
 • Foreldraráð skal skoða framlög til skólamála sveitarfélagsins miðað við aðra málaflokka og bera einnig saman framlög til skóla innan sveitarfélagsins.
 • Foreldraráð skal koma með tillögur til úrbóta um það sem betur má fara ef þörf krefur.