Laugalandsskóli

Mikið og gott samstarf er milli leik- og grunnskóla á Laugalandi og eru eftirfarandi markmið sett í leikskólanum varðandi samskiptin:

 • Að vinskapur og félagsleg tengsl barna í leik- og grunnskóla viðhaldist og styrkist
 • Að veita börnunum stuðning og öryggi með tengingu og samfellu skólastiganna
 • Að elstu börn leikskólans fái gott tækifæri til að kynnast með markvissum hætti aðstæðum og skipulagi fyrir skólabyrjun
 • Að leik- og grunnskólakennarar  yngsta stigs þekki starf hvers annars og geti þannig myndað samfellu í námi og kennslu barnahópsins
 • Að skólarnir stuðli að samfellu í uppeldi og menntun og efli tengsl og samvinnu sín á milli, eins og áhersla er lögð á í námskrám beggja skólastiga
 • Að bæði skólastigin vinni út frá sömu hugmyndafræði og kennarar af báðum skólastigum setji sér sameiginleg markmið með samstarfinu og samræmi kennsluaðferðir (námsaðferðir) svo gæði og skilvirkni náms verði sem best
 • Að skapa sameiginlega sýn á milli skólastiganna þar sem nýtt er það besta frá báðum skólastigum
 • Að skapa meira öryggi fyrir foreldra þegar börn þeirra skipta um skólastig
 • Að taka mið af þörfum barnahópsins og móta vettvang þar sem nám fer fram
 • Að mæta þörfum hvers og eins án þess að flokka aðeins eftir aldri
 • Byggja nám og kennslu á reynslu barnanna

Samstarfsfundir

Skólastjórnendur funda reglulega að hausti og vori. Að hausti funda skólastjórnendur beggja skólastiga og fara yfir væntanlegt samstarf vetrarins. Auk þess er haldinn fundur þar sem leikskólakennari sem sér um elsta hópinn fundar með bekkjarkennara á yngsta stigi til þess að skipuleggja samstarf vetrarins. Með þessum fundum er m.a. verið að efla tengsl kennara á báðum skólastigum.

Á vorin er einnig fundað og þá er m.a.  farið yfir þau gögn sem fylgja nemendum yfir á næsta skólastig og skólastjórnendur meta samstarf vetrarins.  Auk þessara funda eru haldnir fundir eftir þörfum hverju sinni.

Reynt er að samræma einhverja starfsdaga beggja skólastiga en þannig er möguleiki á að samnýta námskeið og ýmsa fræðslu fyrir starfsfólk skólanna.

Íþróttaskóli

Tveir elstu árgangarnir fara í íþróttaskóla einu sinni í viku undir handleiðslu íþrótta- og leikskólakennara ásamt yngstu árgöngum Laugalandsskóla. Það er liður í samstarfi skólastiganna. Þar er hreyfiþroski efldur, þol, samvinna í hóp o.fl. Á vorin og haustin er farið í sund.

Dansvikan

Á haustin er dansvika í grunnskólanum þar sem elstu tveir árgangar leikskólans fá danskennslu hjá danskennara. Í lok dansvikunnar er aðstandendum boðið á danssýningu. 

Skólaheimsóknir

Skólaheimsóknir í grunnskólann hefjast að hausti fyrir elsta árgang leikskólabarna. Þá fara nemendur og taka þátt í einni kennslustund með 1. bekk aðra hvora viku og hina vikuna fara þau eina kennslustund í dagskóla með 1. og 2. bekk. Á þennan hátt kynnast þau umhverfi, reglum og venjum sem ríkja í grunnskólanum. Einnig styrkja þau og viðhalda vinskap sem myndast hefur á fyrri árum í leikskólanum. Að vori fara elstu nemendur leikskólans þrjá daga í grunnskólann. Þá eru þau lengur en einn tíma í senn og prófa að fara í frímínútur, borða nesti og hádegismat með grunnskólanemendum. Á meðan á þessum heimsóknum stendur kemur hluti nemenda úr 1. og 2. bekk í heimsókn í leikskólann.

Námsefni

Góð samvinna er við kennara grunnskóla yngsta stigs varðandi námsefni. Þá fá þeir nemendur leikskólans sem eru farnir að lesa eða sýna lestri áhuga lánaðar lestrarbækur og lestrarmiða þar sem kvittað er á fyrir heimalestur eða lestur í leikskóla. Með þessu geta þessir nemendur leikskólans haldið áfram þar sem þeir eru staddir þegar þeir koma upp í 1. bekk. Það er viðhorf beggja skólastiga  að efla skuli samvinnu milli skólastiganna en ekki flýta nemendum né seinka. Félagslegur þáttur barna á þessum aldri og sterk leikþörf er ríkjandi þáttur í lífi barnsins. Þó nemandi sýni góða námshæfileika skal honum ekki flýtt heldur koma til móts við þarfir hans í leikskóla í samvinnu við grunnskóla. Með þessu er lögð áhersla á samfellu og sveigjanleika milli skólastiganna á Laugalandi.

 

Skemmtanir

Nemendum leikskóla er boðið á ýmsar skemmtanir grunnskólans s.s. generalprufu jólaskemmtunar og árshátíðar auk þess sem nemendum er boðið á  jólaball.

Dagur íslenskrar tungu

Á degi íslenskrar tungu bjóða leikskólanemendur yngstu árgöngum grunnskólans til sín og halda sameiginlega samverustund þar sem m.a. er lesið og farið með ljóð.

Bókasafn

Leikskólinn fær afnot af bókasafni eftir þörfum.