ART

Í nýrri námskrá fyrir leikskóla2011 stendur að mikilvægt sé að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem styrkir getu einstaklinga til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi. Börn eiga að verða læs á samfélagið, menningu, umhverfi og náttúru.  Læra að byggja sig upp andlega og líkamlega, bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum og byggjast grunnþættir menntunar á þessum þáttum.  Til þess að ná fram aðalmarkmiðum nýrrar aðalnámskrár þá teljum við starfsmenn á Leikskólanum Laugalandi að ART þjálfunarmódelið sé góður grunnur fyrir leikskólanemendur. ART stendur fyrir Aggression Replacement Training  og kemur upphaflega frá USA.  Höfundar þessa módels eru þeir Arnold Goldstein, Barry Glick og John C. Gibbs.  ART  er fastmótað, uppeldislegt módel sem hefur það markmið að fyrirbyggja ofbeldi og kenna aðrar leiðir til að leysa samskipta-, tilfinninga- og hegðurnarvanda en það er mikilvægur grunnur fyrir öll samskipti, líðan og nám.  Hugmyndafræðin er að með því að þjálfa færni í gegnum hlutverkaleik og búa til líklegar aðstæður í mismunandi umhverfi þá gefum við nemandanum meiri möguleika á því að geta nýtt sér færnina sem verið er að þjálfa. Við innlögn á færni er einnig stuðst mikið við myndrænt skipulag, brúður, leiki, sögur, spil og almennar umræður.  Börnin koma sér saman um reglur í ART tímum sem hægt er að yfirfæra í allt leikskólastarf. ART þjálfunarmódelið hjálpar okkur til að koma til móts við fjölbreyttan hóp nemenda með mismunandi þarfir og styrkleika. Með þessari þjálfun er hægt að efla og styrkja nemendur auk þess að fyrirbyggja hegðunarerfiðleika.

Í ART er unnið með þrjá þætti, félagsfærni, sjálfstjórn og siðferðisvitund og hafa rannsóknir sýnt fram á að með því að vinna samhliða með þessa þætti næst betri og varanlegur árangur jákvæðrar hegðunar.

Félagsfærni: (sex flokkar sem skiptast upp í 40 færniþætti)

 • Frumþættir í félagsfærni sem er frumskilyrði til að geta þróað áfram félagsfærni
 • Skólafærni sem er nauðsynleg til velgengni í leikskólaumhverfinu
 • Að eignast vini er nauðsynleg færni til að mynda vinatengsl
 • Að takast á við tilfinningar sínar.  Þá eru þjálfaðir þættir sem ýta undir skilning á eigin tilfinningum og annarra.
 • Reiðistjórnun þar sem barninu eru kenndar aðferðir til að takast á vð árekstra í umhverfinu
 • Takast á við álag og erfiðar aðstæður í umhverfinu

Reiðistjórnun – sjálfsstjórnun

 • Hvað er það sem gerir okkur reið?
 • Hvað hugsum við þegar það gerist?
 • Hvað gerist í líkama okkar þegar við verðum reið?
 • Hvernig getum við róað okkur niður?
 • Hvaða afleiðingar hefur það ef við gerum eitthvað af okkur?
 • Hvað er rétta leiðin?

 

Siðferðisþjálfun

Nemendur eru þjálfaðir í að greina rétt frá röngu.  Unnið í gegnum klípusögur.

ART þjálfun fer fram þrisvar sinnum í viku í 12-14 vikur af skólaárinu og er ein færni kennd á viku.  Regluleg þjálfun fer síðan fram úti í raunverulegum aðstæðum þegar nemandi er búinn að læra að nota ákveðna færni.  Unnið er með ART í litlum hópum 3-8 nemendur í einu og eru einn til tveir þjálfarar í hverjum tíma.  Tveir elstu árgangar skólans fá ART þjálfun og hafa flestir starfsmenn sótt námskeið og eru því ART þjálfarar.  Þannig geta starfsmenn beitt þessari tækni í öllu daglegu starfi sem gerir starfið okkar markvissara.

Þeir færniþættir sem þjálfaðir eru í ART tengjast allir meira og minna „leiðarljósum leikskóla“ sem fjallað er um í aðalnámskrá leikskóla 2011 og því gott og skilvirkt verkfæri fyrir kennara og nemendur. ART er einnig unnið í nánu samstarfi við foreldra barnanna svo þar skapast góður vettvangur til samstarfs heimilis og skóla.  Meiri og betri árangur þar sem allir vinna saman að því að þjálfa sömu þætti á sama tíma og allir tala sama „mál“ sem notað er í þjálfunartímum. Barnið lærir markvisst þá grunnþætti sem eru hvað mikilvægastir til þess að ná góðri félagsfærni sem er grunnur að öllu frekara námi og þátttöku í daglegu lífi.

ART er stór hluti af menningu leikskólans og fengum við vottun sem ART leikskóli þann 3. febrúar 2014.  Fyrsti ART vottaði leikskóli landsins.