Þorrablót

Í dag, 23. janúar, er bóndadagur og þann dag er hefð fyrir því að halda alvöru þorrablót hér í leikskólanum. Í aðdraganda Þorra æfum við þulur og lög sem tengjast þessum árstíma og hver hópur flytur atriði fyrir hin börnin og starfsfólk. Það var engin undantekning á þessari hefð í ár og dagurinn tókst afskaplega vel. Hóparnir söfnuðust saman niðri í Holtum þar sem hver hópur steig á stokk með sínum kennurum. Í kjölfarið spiluðu þeir Grétar og Víkingur á harmonikkurnar sínar og það var sannkallað dansiball og mikið fjör. Að dansinum loknum var síðan boðið upp á þorrahlaðborð uppi á Landi og þar gafst öllum kostur á að gæða sér á alvöru þorrakræsingum. Yngstu börnin borðuðu á sinni deild og fengu öll að smakka súrmat og voru ekkert sérstaklega hrifin. Eldri hóparnir völdu sér mat af hlaðborðinu og sumir tóku áhættu og smökkuðu súrmat á meðan aðrir ákváðu að láta það eiga sig. 

Myndir af herlegheitunum hafa verið sendið í gegnum Kinderpedia appið, en hér að neðan má sjá myndir ef hverjum hóp þar sem þau voru að flytja sín atriði.