Október þaut hjá og veturinn minnti hraustlega á sig. Börnin voru himinlifandi með snjókomuna og nýttu snjóinn til hins ýtrasta í útiverunni. Þrátt fyrir að snjóinn hafi tekið upp er áfram í kaldara lagi og því mikilvægt að öll börn hafi góðan kuldafatnað í hólfunum. Þar skiptir mestu að eiga góða vettlinga, ullarvettlingar eiga þar vinningin en ullin heldur vel hita á litlum fingrum.
Það var mikið um uppbrotsdaga í október, fyrst má þar nefna klútadaginn, sem haldinn var í tilefni af afmæli Höllu Tómasdóttur forseta. Það vill svo skemmtilega til að börnin í gula hóp (árgangur 2021) hafa sýnt forsetunum okkar sérstakan áhuga og hafa því fengið fræðslu um forseta og hlutverk þeirra. Í aðdraganda klútadagsins fengu öll börn í leikskólanum að útbúa sér klúta úr efni sem til var í leikskólanum. Börnin í gula hóp skrifuðu síðan bréf til frú Höllu og í fylgibréfi frá leikskólastjóra er Höllu boðið að koma í heimsókn til okkar í leikskólann. Það verður spennandi að sjá hvort Halla hafi tök á því að koma og hitta krakkana okkar.
Því næst var bangsadagur, þar sem öllum börnum bauðst að taka með sér bangsa í leikskólann. Þessi dagur er haldinn til minningar um Teddy Rosevelt, fyrrum forseta Bandaríkjanna, og er haldið upp á daginn víða um heim.
Þá var komið að sjálfri Hrekkjavökunni og þá var nú mikið um dýrðir. Börnin höfðu fengið að skreyta á deildunum, búa til leðurblökur, drauga, grasker og hvaðeina sem tilheyrir þessum degi. Tveimur elstu árgöngunum var síðan boðið að koma og skoða draugahús, sem elstu bekkir grunnskólans höfðu sett upp. Það var alveg einstaklega hræðilegt, en á sama tíma ótrúlega skemmtilegt.
Þannig að þessi mánuður hefur verið ákaflega viðburðarríkur og skemmtilegur, reyndar eins og allir aðrir mánuðir í leikskólanum.
Að lokum langar mig að segja nokkurð orð um manneklu. Í október gerðist það að við neyddumst til að loka einni deild leikskólans klukkan 11 vegna manneklu. Það þarf mikil forföll hér innanhúss til þess að við grípum til þess að loka deildum, en þennan dag vantaði okkur alls sex starfsmenn í hús. Þegar veikindi herja á starfsfólk og við sjáum fram á að ná ekki að manna deildir með viðunandi hætti byrjum við alltaf á því að draga úr skipulögðu starfi og færa starfsfólk milli deilda. Markmið okkar er ávallt að tryggja öryggi og vellíðan barnanna en sé mikil vöntun á starfsfólki hefur það óhjákvæmilega áhrif á börnin. Þegar svo er komið að við teljum okkur ekki geta tryggt öryggi og vellíðan barnanna þá grípum við til þess ráðs að draga úr starfsemi með því að loka deildum. Við höfum ávallt upplifað skilning foreldra í þessum aðstæðum og fyrir það erum við þakklát.
Mikilvægar dagsetningar framundan
11. nóvember – starfsdagur
28. nóvember – leikrit í tösku
Ekki fleira að sinni
Kristín Ósk, leikskólastjóri