Síðastliðinn föstudag héldum við okkar árlega jólaball hér í leikskólanum. Hátíðin hófst á því að elstu börnin í rauða hóp fluttu helgileik, með stuðningi nokkurra sjálfboðaliða úr gula hóp. Helgileikurinn er fastur liður í undirbúningi jólanna og börnin hafa töluverð áhrif á framsetningu leikritsins, þó grunnurinn sé ávallt sá sami. Í ár voru til að mynda tvær Maríur og á síðasta ári var enginn Jósep.
Að helgileiknum loknum var komið að því að dansa í kringum jólatréð. Það er sterk hefð fyrir því hjá okkur að hann Grétar í Áshól komi og spili á harmonikku á hátíðisdögum leikskólans en undanfarin ár hefur hann Víkingur Almar frá Riddaragarði, barnabarn Grétars, komið með honum og þeir spilað fyrir dansi. Það var enginn breyting á því í ár og þeir spiluðu af sinni alkunnu snilld.
Á miðju jólaballi var síðan barið harkalega á glugga og inn af svölunum komu fjórir kátir jólasveinar. Þeir stigu dans með okkur góða stund áður en þeir færðu öllum börnum mandarínur og í kjölfarið fengu öll börn gjöf frá jólasveinunum. Að því loknu tóku sveinkarnir sig til og skelltu sér ofan í strigapokana og hoppuðu út úr salnum við mikla kátínu viðstaddra.
Jólaballið er einn af okkur föstu liðum í undirbúningi jólanna og það fylgir því alltaf mikil gleði að dansa í kringum jólatré, syngja gömlu góðu jólalögin og ekki síst að sjá viðbrögð barnanna við því þegar jólasveinarnir koma í heimsókn. Mörg barnanna voru að sjá jólasvein í fyrsta sinn og augljóst að spennan var mikil, en öll gengu þau til sveinka og fengu afhenta gjöf merkta sér og gleðin leyndi sér ekki.
Meðfylgjandi eru síðan nokkrar myndir af helgileiknum, en það er hún Anna Bára sem skipulagði hann með börnunum.





