Það er fastur liður í undirbúningi jólanna hér í leikskólanum að baka piparkökur og bjóða fjölskyldum barnanna í piparkökukaffi. Við hefjum undirbúning í vikunni á undan, hrært er í deig og allar hendur - bæði stórar og smáar - taka þátt í bakstrinum. Það er óneitanlega handagangur í öskjunni að leyfa stórum hópum barna að taka þátt í bakstri, en allt hefst þetta með góðri samvinnu barna og starfsmanna.
Það fylgir því alltaf mikil eftirvænting hjá börnunum þegar þau eiga von á fjölskyldum sínum í leikskólann. Spennan magnast eftir því sem nær dregur viðburðinum og má segja að biðin hefjist strax að morgni. Það er alltaf ánægjulegt að sjá viðbrögð barnanna við heimsóknum foreldra og systkina og gleðina sem það veitir þeim að sýna foreldrum eða ömmum og öfum leikskólann sinn. Á hverri deild verður til lítið kaffihús og á sama tíma og foreldrar spjalla við góða kunningja verða vonandi líka til ný tengsl við aðra foreldra. Það er nefnilega svo mikilvægt að vera í tengslum við aðra foreldra og þekkja vini barnanna sinna.
Það er alltaf gaman að sjá hversu margir gefa sér tíma til að koma til okkar á svona viðburði og við erum þakklát fyrir það góða samfélag sem myndast hefur hér í leikskólanum