Endurmenntun og starfsþróun starfsfólks í leikskólanum

Veturinn 2023-2024 hefur nokkuð verið um endurmenntun og starfsþróun starfsfólks í Leikskólanum Laugalandi í formi námskeiða og fræðslu. Þetta eru gríðarlega mikilvægir þættir sem miða að því að efla færni og þekkingu starfsfólks, stuðla að aukinni fagmennsku og hafa þeir jákvæð áhrif á þróun á leikskólastarfinu. Þar að auki stuðla endurmenntun og starfsþróun að aukinni starfsánægju sem einnig skilar sér í daglegt starf.

Síðastliðinn vetur hafa tveir starfsmenn verið í mastersnámi í leikskólakennarafræðum, einn er að ljúka viðbótarnámi í einhverfuráðgjöf og einn lauk endurmenntunarnámi í verkefnastjórnun og leiðtogafærni.

Á fræðsludegi starfsfólks sveitarfélagana síðastliðið haust fékk allt starfsfólk fræðslu um hinseiginleikann frá Samtökunum ´78 ásamt fræðslu um starfsánægju og virðingu á vinnustað. Á haustþingi leikskóla fengu allir fræðslu um áhrif umhverfis á leik barna ásamt fræðslu um samskipti og sjálfsmynd. Að auki var boðið upp á fjölbreytta fræðslu sem starfsmenn gátu valið s.s. samskipti í leikskólasamfélaginu, afleiðingar áfalla á börn, hlutverk faglegra leiðtoga, ærslaleik ungra barna og hvernig hægt er að efla heilsu og hreysti barna.

Bergrún leikskólaráðgjafi frá Skólaþjónustunni var með fræðslu fyrir starfsfólk um vináttuverkefnið Blæ. Allt starfsfólk fékk fræðslu um stærðfræðiskimunartækið MIO ásamt fræðslu frá Barna- og fjölskyldustofu um kynferðisofbeldi og kynferðislega hegðun ungra barna.

1. mars var sameiginlegur starfsdagur allra leikskóla á Skólaþjónustusvæðinu þar sem áhersla var á Jákvæðan aga. Starfsfólk fékk tækifæri til að dýpka þekkingu sína á stefnunni, kynnast verkfærum hennar og fékk að auki tækifæri til að ræða við starfsfólk annarra leikskóla um hvernig hægt sé að koma til móts við krefjandi aðstæður með góðvild og festu en það eru lykilhugtök í Jákvæðum aga.

Í vetur tók einn starfsmaður þátt í Menntafléttu – íslenskuþorp í leikskólanum og var einn starfsmaður á námskeiði fyrir starfsfólk leikskóla á vegum Skólaþjónustunnar. Á haustönn fór einn starfsmaður á réttindanámskeið á Jákvæðum aga. Á vorönn fór einn starfsmaður á TRAS námskeið, einn sótti grunn- og framhaldsfræðslu um farsæld barna á vegum Barna- og Fjölskyldustofu, einn starfsmaður fór á CAT-kassa námskeið og tveir starfsmenn fóru á námskeið til að læra að nota Íslenska málhljóðamælinn.

Það er virkilega ánægjulegt hve margir starfsmenn eru áhugasamir um endurmenntun og hafa margir þar að auki sótt sér ýmsa fræðslu og fyrirlestra utan vinnutíma. Allt hefur þetta jákvæð áhrif á starfið og miðar að því að koma til móts við börnin á sem bestan hátt til að stuðla að vellíðan þeirra í leikskólanum.